Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
28.3.2007 | 18:22
og áfram af engu
Vegna gífurlegs þrýstings rita ég hér nokkrar línur....... það er enn mest lítið að frétta, Arnþór enn veikur og því lítið um fréttnæmar uppákomur.
Jú fór í klippingu í fyrradag, rosagaman að fá klippingu og strípur á dönsku, orðin mjög stutthærð fyrir sumarið.
Var að útrétta í dag fyrir íslandsferð, tvær frænkur sem eiga ammli í apríl svo það var verið að versla gjafir.
Pantaði tíma í dag hjá dýralækni fyrir mig, ætla að sjá hvort hann geti gert mig normal......... eða ekki ! Tíminn er fyrir hamsturinn okkar hann Sæt, á morgun kl.13.20 lýkur hans tæplega tveggja ára ævi. Arnþór fær söguna aðeins öðruvísi en Sætur mun veikjast á meðan við erum á íslandi og deyja ! Vona að guð fyrirgefi mér lygina. Var það ekki í Friends þáttunum sem bróðir Moniku hélt ennþá að gæludýr hans hefðu verið gefin þegar hann var lítill drengur ? foreldrar hans hlífðu honum við sannleikanum. Vona að ég geti sagt Arnþóri sannleikann áður en hann verður þrítugur ha, ha.
Best að halda áfram að hafa það gott hér í sólinni og 14 stiga hitanum.
Hilsen,
Linda.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.3.2007 | 21:46
Svo sem ekkert sérstakt
Enn einn mánudagurinn liðinn. Eyddi honum heima við með veikt barn jibbíí, Arnþór vaknaði með hálsbólgu og hita. Fórum á læknavaktina og fengum að vita að hann er komin með streptokoka, hann hefur legið eins og skotin í kvöld í móki (ágætis tilbreyting).
Nú er bara að vona að hann hristi þetta af sér áður en við leggjum í langferð, annars er eyjólfur að hressast í þessum skrifuðum orðum (kl. er 23.45) og hann komin með ráð og rænu og biður um eitthvað að borða.
Á morgun fer ég í viðtal hjá námráðgjafanum í skólanum sem ég ætla að sækja um, vil vera viss um að allir kúrsar séu kenndir og allt gangi upp svo ég geti tekið þetta á einu ári. Flestir taka þessar 30 einingar á tveimur árum með vinnu.
Ég krosslegg fingur og vona það besta á öllum sviðum.
19.3.2007 | 14:14
Abbabab
Hvað er annað hægt að segja þegar ég hef staðið mig svo herfilega í blogg málunum. ...... og hvað er svo að frétta síðan síðast ?
1 Þorrablótið heppnaðist vel
2 Þurfti ekki rándýr gleraugu, sjónin í fínu lagi (systur til mikilla ama, þá getur hún ekki notað það á mig)
3 Tennurnar klárar á morgun til uppsetningar (ha ha ha, alveg satt)
4 Önnur mál: Vorið er komið og grundirnar gróa osfr. brumið farið að gægjast út á trjánum og ákveðið millibils ástand í gangi þ.e. svona flíspeysu veður. Ég hef notað seinnipart veturs til að sanka að mér aukaforða, etið utan á mig nýtt lag. Er að vona að það bráðni af hér í sumar og um leið held ég að ég hljóti bjartsýnisverðlaun Bröste.
Arnþór hefur það fínt og skólagangan gengur ágætlega þó hann kvarti yfir að Danir hlusti ekki á hann og þeir barasta horfi ekkert framfyrir sig og stími á alla og að ógleymdu aðal hneyksli hans að DANIR NOTA EKKI HJÁLM ÞEGAR ÞEIR HJÓLA. Sem er náttúrulega ein af dauðasyndunum þegar maður er 6 ára og kemur frá Íslandi. Annars tilkynnti hann mér um daginn að hann ætlaði ekki að verða pabbi þegar hann yrði stór ! því þá þyrfti hann nefnilega að skeina barninu sínu og það lætur hann ekki bjóða sér. Það er því allt útlit fyrir að ég verði ekki amma í framtíðinni. Svo má ekki gleyma fyrstu medalíuni sem hann fékk á síðasta handboltamóti, honum finnst hann vera "on the top of the world" og er oft með hana um hálsinn hér heima við. Hann stefnir á að fá fullt af þeim til að vera eins klár og Bjarki Már frændi sem á meira að segja bikar.... það er fátt sem toppar það.
Af mér og mínum málum er það að frétta að ég var á námskeiði hér að læra að gera atvinnuumsókn og ferilskrá (ekki seinna vænna fyrir fyrrverandi starfsmannastjórann). Sjáum svo hvort ég fái vinnu þar til skólinn byrjar 1.sept. Stefni á diplóma nám í fullorðinsfræðslu og fræðslustjórnun sem tekur eitt ár (30 einingar). Svo er að sjá hvort þá sé ekki bara komin tími til að luntast heim til sín og segja þetta gott ! Tíminn leiðir það í ljós, kannski kynnist ég dönskum draumaprinsi sem tefur heimkomu mína. Mér skilst að þeir geti bara bankað upp á eða jafnvel liggi undir rúminu hjá manni einn daginn þegar maður á síst von á því !
Ætla að enda skrif mín á gullkorni frá hinum mjög svo VIRKA syni mínum "Ég nenni sko ekki að vera dauður (nú hvað meinaru?) jú af því þegar maður deyr þá breytist maður í engil og ég nenni sko ekki að vera passandi alla og vaka yfir þeim á nóttuni"
10.2.2007 | 14:39
Þorrablót og nýr fjölskyldumeðlimur
Jibbíí ég er búin að eignast nýjan frænda. Litlasti bróðirinn er búin að búa til tvö stykki stráka og seinna stykkið fæddist í gær 9. febrúar. Hægt er að sjá myndir af honum á blogginu hans Arnar Freys hér á mbl.is (Arnar Freyr Reynisson).
Ég get þá skálað fyrir NY fjölskyldunni í kvöld þegar ég fer á þorrablótið hjá Íslendingafélaginu hér í Odense. Er að fara að keyra Arnþór í næturpössun og svo að taka mig til. Get ekki annað sagt en að ég hlakki til.
Skilaboð til Berglindar frænku....... þú ert alltaf velkomin til okkar
8.2.2007 | 09:58
Danskur húmör
Lífið er dejligt nú, sólin skín á frostna jörð, kaffið er gott í nýja flotta bollanum mínum og lestri á Nyhedsavisen lokið. Það er ótrúlegt hvað dananum tekst að leika sér með tungumálið og segja skemmtilega frá. Eins og t.d. í greininni þar sem er verið að segja frá nýútkominni tölfræðiskýrslu hér í landi. Fyrirsögnin er "mörg dönsk svín og of lítið kynlíf" þar segir að við (danir) búum til of fá börn, keyrum í of stórum bílum og sendum massa af sms og á meðan standa 13 miljón svína og fylgjast með....... í janúar 2006 gengu 5.427.459 manneskjur um á þeim 43.098 ferkílómetrum sem danskt land er en á meðan nutu 13 miljón svína lífsins í stíum sínum.
Snilldarlega sagt frá þessum niðurstöðum.
7.2.2007 | 14:38
Getur maður/kona átt hund sem kærasta ?
Ég bara get ekki hætt að hugsa um grein sem ég las í blaði hér í vikunni. Hún fjallaði um mann sem sagði hundinn sinn vera kærasta sinn. Ég reyni nú að öllu jöfnu að vera fordómalaus í lífinu en þetta er bara eitthvað sem ég fæ ekki til að stemma.
Þessi maður elskar hundinn sinn mjög heitt og á milli þeirra er mjög sterkt samband. Hann hafði í gegnum tíðina ekki getað fundið ástina hvorki með karli eða konu. Svo gerist það að nágranna hundur hans er á lóðerí og hundur hans er viðþolslaus, spangólar alla nóttina. Maðurinn hafði heyrt að það hjálpaði að létta á sæðisþrýstingi hunda í svona tilfellum. Hann semsagt létti á sínum hundi og það hafði mjög góð áhrif á þá báða eða eins og hann sagði "það var yndisleg tilfinning fyrir mig". Eftir það var ekki aftursnúið, hann hafði fundið ástina ! Hann tekur þó sérstaklega fram að hann hafi ekki endaþarmsmök við hundinn, slíkt eyðileggur líffæri hunda.
Þetta vekur upp spurningar, hvað þarf til, til að samband kallist ástarsamband (kærasti eða kærasta) ? Flestir elska gæludýrið sitt og bindast því sterkum böndum, sumir kannski fullnægja því líka kynferðislega og fá kikk út úr því. Hundar hlýða húsbónda sínum.........
Þarf ekki að koma til svörun í báðar áttir til að segja að maður sé í ástarsambandi og þá er ég að meina öðruvísi svörun en voff, voff eða voff, voff, voff ?
Hvað finnst ykkur ?
6.2.2007 | 17:06
Vanagangur
Já það er nú svo, gott að ég fékk viðbrögð frá fjölskyldunni vegna verksmiðjugallans. Bróðir er öllu raunsærri en systir sem enn lifir í afneitun
Annars eru þetta smáaurar sem ber ekki að hafa áhyggjur af, eins og sumir segja peningar eru afstætt hugtak. Tannlæknirinn gaf mér tilboð sem hljóðaði upp á 13.000 dkr........iss piss.
Lífið gengur annars sinn vanagang hér í Danmörku. Við mæðginin fórum á handboltamót á laugardagsmorgni þar sem drengurinn keppti 4 leiki og stóð í markinu allan tímann. Það gladdi móðurhjartað að sjá hann þarna á milli stanganna og ég stóð mig að því að hugsa hvort hann hefði erft markmanns hæfileikana sem móðurbræður hans hafa. Ég spurði hann svo eftir mótið af hverju hann hefði verið í marki, svarið var einfalt "þá þarf ég ekki að vera úti á velli". Þannig ég veit ekki hvort hæfileikarnir séu til staðar eða hann svona latur. Nema þetta sé ástæðan fyrir því að spilarar velja sér markið til að standa í ??????
Þennan sama dag fórum við svo á MGP hátíð í eftirskólanum (melody grand prix) frábært framtak hjá starfsfólkinu. Fyrst var hæfileika keppni, 18 atriði og svo kínverskt hlaðborð og loks alvöru diskótek með ljósasýningu, reyk og öllu tilheyrandi. Hátíðin stóð yfir frá kl. 17-23. Arnþór skemmti sér konunglega eins og hinir 330 gestirnir, sem voru á öllum aldri. Börnin 6,7 og 8 ára og foreldrar og systkini. Mér fannst skondið að hægt var að kaupa sér öl eða léttvín, þessi drykkjumenning er svo frábrugðin hinni íslensku. Það þætti saga til næsta bæjar ef áfengi væri á barnaskemmtun á fróni.
Annars erum við heima í dag og í gær, Arnþór orðin veikur enn eina ferðina, hiti og höfuðverkur. Sem betur fer var ég búin að kaupa pússluspil svo seinniparturinn í gær var nýttur í púsl. Okkur fannst það skítlétt, bara 500 stykki og fórum langt með að klára það á einu kveldi. Íbúðin að fyllast af pússluspilum, komin með 5 listaverk með 1000 púslum. Var að spá í að ramma þetta inn og halda sýningu fyrir vinina, kannski ég geti selt þau. Þá er ég komin með upp í viðhaldskostnaðinn
31.1.2007 | 12:44
Að krefa foreldrana um greiðslu...
Hafið þið heyrt um að hægt sé að krefjast þess að foreldrar greiddu útlagðan kostnað vegna galla sem kemur fram síðar á lífsleiðinni ? Nú stend ég frammi fyrir að þurfa að fá mér ný gleraugu aðeins tveimur árum eftir að ég endurnýjaði þau. Er svo heppin að vera bæði með fjarsýni, nærsýni og sjónskekkju. Ný gler kosta 70.000 iskr, mér finnst þetta hrikalega óréttlátt þar sem systkini mín þurfga aðeins "grín" gleraugu til að lesa með (nema systir sem í tíma og ótíma segir okkur hinum frá því). Ekki nóg með það þá var ég í sjúkrajálfun í morgun, er með viðkvæmt bak og á að forðast það að sitja ! Sé ekki alveg hvernig ég fer að því þannig ég kannaði hvað svona stóll kostaði þar sem þunginn hvílir á sköflungunum...... hann kostar aðeins 45.000 iskr. Eftir að hafa lagt saman hvað þessi hjálpartæki kostuðu fékk ég létt svimakast og stóð mig að því í stressi mínu að vera að fikta við sérsmíðuðu tönnina mína sem er orðin laus (fæ að vita á morgun hvað kostar að fá brú).
Ég spyr, er þetta ekki eins og leyndur galli í bifreið sem fram kemur síðar og framleiðandi þarf að greiða ? Ef gallinn hefði komið fram fyrr, á meðan bíllinn var í ábyrgð er ekki spurning hver hefði þurft að greiða brúsann. En nú er ég komin úr ábyrgð orðin meira en 18 vetra og allt útlit fyrir að þetta lendi allt á mér. Gallinn í systkinum mínum kom fram fyrr á lífsleiðinni á meðan þau voru enn í ábyrgð, systir fékk t.d. góm og svo spangir og það kostaði sko sitt. Það var lítill sem enginn viðhaldskostnaður við mig fyrstu 18 árin.... á ég þetta þá ekki inni ?
Ætla að melta þetta næstu daga og sjá hvað ég geri, hlýt að koma með góða lausn þar sem við íslendingar erum svo ótrúlega klár miðað við íbúafjöldann á landinu. Það fannst allavega íþróttafrétta mönnum í sjónvarpinu í gær þegar þeir voru að lýsa landsleiknum. Þeir áttu bara ekki til orð að við værum með svona gott og sterkt landslið þar sem aðeins 270.000 manns byggju á íslandi.
Var að spá í hvort ég ætti að hringja í sjónvarpstöðina og láta þá heyra það að við værum sko allsekki 270 þús heldur 300 þús. Mér var stórlega misboðið en eftir að hafa dregið andann nokkrum sinnum fannst mér þetta allt í einu svo fyndið. 30 þús gerir ekki gæfumuninn, við erum enn þessi litla þjóð sem daninn skilur ekkert í. Smá eyja í norðurhafi þar sem íbúarnir bara ybba sig, komandi hér og kaupandi allt mögulegt og ómögulegt og svo næstum því unnum við þá í handboltanum. Svei, svei og nei.
Best að fara að hvíla sig, hef hvorki bak eða sjón í þetta lengur.
25.1.2007 | 21:52
Þá er að byrja
Betra seint en aldrei. Nú ætla ég að fara að skrá danska lífið niður, byrja ekki á byrjuninni heldur núinu.
Dagurinn leið við leik og söng.... eða ekki. Þurfti að fara til heimilis læknis í dag, guð minn góður hvað honum finnst leiðinlegt í vinnuni, eða er það kannski ég sem kalla fram þessa þurru hegðun hjá kallinum. Hann er nú ekki alveg að skilja hvað ég sé að vilja hér í landinu, ég fer ekki í námið fyrr en í haust og ég er bara að chilla. Hann er ekki einn um að skilja þetta ekki, daninn verður doldið hvumsa þegar ég segist hafa flutt hingað til að kynnast landi og þjóð. Maður nebblega gerir ekki svoleiðis hér, að selja íbúðina sína og draslið og flytja bara í eitthvað annað land til að læra málið. Alger peningaeyðsla og óþarfi, úff það verður ákveðin léttir þegar námið byrjar þá er ég allavega orðin lögleg eða gild í samfélaginu.
Ótrúlegt hvað dagsformið hefur mikið að segja varðandi að tala dönskuna, í dag var ég eins og málhaltur krakki á meðan krakkinn á heimilinu söng og talaði við sjálfan sig á hrikalega flottri dönsku. Stundum er ég 6 ára en ekki hann.
Á morgun ætla ég að tala flotta dönsku þegar ég fer út í búð að kaupa mér nýtt púsluspil, það fjórða í röðinni (með 1000 púslum) svo ætla ég að rúlla dönskunni upp þegar ég hringi til að vesenast í nettengingunni hjá mér.
Já það er gott að hafa markmið.